Örvitinn

Samtíningur

Dagurinn hefur gengið nokkuð vel hjá mér og stelpunum. Fórum út á róló í morgun og lékum okkur andartak. Flúðum reyndar neðri rólóinn útaf geitunungum sem virðast hafa tekið ástfóstri við kastalann, enduðum á rólónum fyrir framan húsið okkar.

Ég eldaði svo hádegismat handa okkur, skar niður kjötafganga frá því í gær, steikti lauk, hvítlauk og kjötið, kryddaði með basiliku, eldaði kúskús og blandaði saman við. Stelpurnar borðuðu ágætlega, þetta var helvíti gott með smá sweet chili sósu. Reyndar verður allt helvíti gott með smá sweet chili sósu.

Hamborgarinn frá því á Sunnudagskvöld skilaði sér loksins nú í hádeginu. Það tekur semsagt um 40 tíma að fara í gegnum kerfið. Ég er sannfærður um að þessar upplýsingar gleðja alla.

Birgir sýnir lífsmark, því fagna ég.

Sísí fjallar um bloggumfjöllun Veru og bendir réttilega á að til eru karlmenn sem blogga um þyngd sína. Ég efast um að margir bloggi meira en ég um þyngdina, þó ég sé svosem ekki að flagga því mjög mikið. Set það ekki á forsíðuna eða í rss yfirlitið.

Unnur er þreytt á þeirri kröfu samfélagsins að hún eignist börn.


Sama með börn. Allir eiga að eignast börn og ég held stundum að þjóðfélagið hafi tekið sig saman um þetta að barneignir séu hin æðsta dyggð í einhverskonar samsærisafneitum. Mér finnst börn æðisleg en ég er hreint ekkert svo viss um að ég vilji eignast mín eigin og fólki finnst það yfirleitt afskaplega óeðlilegt. Og þá er ég ekki að meina óeðlilegt as in skrýtið heldur ÓEÐLIlegt.

Ég skil ekkert í því fólki sem vill ekki eignast börn :-) Æi, jú stundum skil ég það, en yfirleitt ekki. Það er samt merkilegt áhugavert að velta þessu fyrir sér.

13:50
Inga María sefur og Kolla dundar sér í tölvunni. Ég er búinn að setja í þvottavél. ;-)

dagbók
Athugasemdir

Gyða - 15/07/03 15:43 #

Já en það verður að fá að koma fram Matti að konan þín fór að ráðum Sirrýjar og flokkaði þvottinn svo að ekkert skemmist og þú getir þvegið og þvegið án þess að hafa áhyggjur af því. :-)

En ég vil bæta því við að ég er samála Unni með það að það er ekki eðlilegt að allir verði að eiga börn. Jafnvel þó ég skilji ekki að fólki langi ekki til þess þá er bara svo margt sem ég skil ekki að annað fólk skuli ekki vilja eða vilja eftir atvikum!! S.s. að langa til að eiga heima í útlöndum ég skil ekki að fólki langi til að flytja frá íslandi og búa annarsstaðar en samt finnst mér ekkert rangt að langa til þess :-)

Matti - 15/07/03 15:59 #

Heyrðu góða mín, ef það á að verða einhver regla hjá þér að gera lítið úr heimilisstörfum mínum í dagbókinni minni fer ég bráðlega að eyða athugasemdunum þínum ;-)

Auðvitað munar öllu að það sé búið að flokka þvottinn :-), ég er þegar búinn að henda í aðra vél.

Gyða - 15/07/03 16:08 #

Ég var með mjög góðan bloggpistil í huganum í strætó á leið í vinnuna um verkaskiptingu á heimilinu og gagnrýni á hana af því að annar hluti parsins tekur að sér ákveðin verk og hitt önnur verk. Pælingin var sú hvort að ef við værum af sama kyni hvort einhverjum dytti í hug að gagnrýna það að ég sitji oftar í þvottavél en þú eldi oftar osfrv.