Örvitinn

Henson - FC Kiddi

Henson og FC Kiddi áttust við í utandeildinni á Ásvöllum Hafnafirði í kvöld. Leikurinn endaði 2-2 og má deila um hvort þau úrslit eru sanngjörn.

Eitthvað gengur Henson illa að fá menn til að mæta og í kvöld mætti enginn markvörður, þurftu því tveir útileikmenn að skiptast á að skipa þá stöðu. Henson var með einn og hálfan varamann í leiknum (tveir en annar þeirra meiddur) á meðan FC Kiddi var að mér sýndist með næstum því tvö lið. Ég er nú á báðum áttum hvort sé betra, að vera með of marga eða of fáa skiptimenn. A.m.k. finnst mér ágætt að spila heilan leik.

Hvað um það, hér skal leiknum lýst eftir bestu getu.

FC Kiddi var sterkara liðið í upphafi meðan Henson áttuðu sig á stöðunni enda hafði byrjunarlið Henson aldrei áður verið svona skipað. Kiddi sótti meira en þó var ekki um einstefnu að ræða. Henson komst yfir eftir um tíu mínútna leik, boltanum var leikið upp kantinn þar sem stórkostlegur hægri kantur Henson (ég :-P ) gaf frekar slappan bolta fyrir. Varnarmaður Kidda braut klaufalega á framherja Henson og dæmdi dómarinn hiklaust víti. Ég er ansi hræddur um að sá dómur hafi verið rangur og að brotið hafi verið utan teigs (ekki er deilt um að brot átti sér stað). Alli tók vítið sem var varið í stöng en Alli náði boltanum og skoraði í annarri tilraun.

Ekki leið á löngu áður en Kiddi jafnaði leikinn, aukaspyrna var dæmd á miðjum vallarhelmingi Henson úti við vinstri kant. Góð fyrirgjöf skoppaði í teignum og eftir klafs fyrir framan markið potuðu leikmenn Kidda knettinum í mark. Frekar klaufalegt mark satt að segja en svona eru þó ansi mörg í þessari deild. Bæði lið sóttu nú og nokkuð jafnræði var með liðum. Þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik lék FC Kiddi upp vinstri kant, þar missti leikmaður knöttinn útaf en það fór framhjá dómaranum, lék hann þá upp endalínu og inn í teig þar sem brotið var á honum og réttilega dæmd vítaspyrna, þó að sjálfsögðu hefði átt að dæma innkast þar áður.

Staðan var því 2-1 í hálfleik fyrir FC-Kidda.

Í síðari hálfleik voru gerðar smá breytingar á uppstillingu hjá Henson og ég var settur í senterinn sem ég spila nú ekki oft. Ég held ég hafi komist ágætlega frá því í dag. Átti nokkra ágæta spretti, hélt boltanum ágætlega en átti þó engin marktækifæri sem varla telst góður árangur hjá framherja.

Henson var sterkara liðið stóran hluta fyrri hálfleiks, FC Kiddi féll í þá gildru að bakka og sótti Henson því nokkuð stíft án þess að skapa sér mjög hættuleg færi, frekar meira um hálffæri. Inn á milli áttu Kiddamenn nokkuð góðar sóknir.

Þegar um fimmtán mínútur voru eftir af leiknum fékk Henson hornspyrnu hægra megin. Ágætur bolti var gefinn fyrir og markmaður Kidda náði ekki til boltans enda var brotið á honum en dómarinn tók ekki eftir því, boltinn skoppaði til Inga sem átti skot sem fór í hönd varnarmanns og því var dæmt annað víti. Úr því skoraði Maggi og staðan var því 2-2.

Það sem eftir leið leiks sótti FC Kiddi nokkuð meira og áttu meðal annars ansi hættulegt færi þar sem boltinn fór í þverslá og skoppaði svo fyrir framan mark Henson.

Leikurinn var drengilega leikinn, lítið var um gróf brot og menn voru ekkert mikið að rífast í andstæðingnum. Menn voru þó misjafnlega sáttir við dómarann enda gerði hann nokkur mistök í leiknum. En það verður líka að taka mið að því að starf dómara í utandeildinni er síður en svo auðvelt og að mínu mati stóð hann sig vel því hann hélt leiknum niðri (með því að nota gulu spjöldin óspart) og enginn slasaðist en ansi mikið hefur verið um það í deildinni. FC Kiddi eru vafalítið ósáttir við báða vítaspyrnudómana en í báðum tilvikum er hægt að réttlæta frá sjónarhóli dómara.

utandeildin