Henson - Hómer
Henson mætti Hómer í gærkvöldi á gervigrasinu í laugardal. Hómer sigraði 5-3 og er því ljóst að tímabilið fer ekki vel af stað hjá Henson.
Hér fer lýsing mín á leiknum sem ég setti inn á utandeildarspjallið á sport.is
Því verður ekki neitað að Hómer var sterkara liðið í þessum leik, tölurnar ljúga ekki.Þó átti ég von á því að Hómer væri betur spilandi lið en leikur þeirra er afskaplega einfaldur. Tveir leikmenn eru allt í öllu í þessu liðið, leikmenn nr. 7 og 10. Aðrir eru fyrst og fremst í því hlutverki að þvælast fyrir og bomba boltanum fram á þá.
Leikurinn í gær byrjaði með látum, Hómer komst yfir eftir nokkrar mínútur. Henson skoraði svo tvö mörk með stuttu millibili og staðan því 2-1 fyrir Henson um miðjan fyrri hálfleik.
Leikmenn Henson kunna nú ekki við að gera lítið úr andstæðingum sínum þannig að þeir sáu þann eina kost í stöðunni að afhenda Hómer tvö mörk á silfurfati sem Hómer þáði. Staðan í hálfleik var þá 3-2 fyrir Hómer.
Í upphafi síðari hálfleiks var Henson mun sterkara liðið og sótti án afláts. Hómer fékk að lokum eina skyndisókn sem endaði með því að annar af leikmönnum þeirra (hinir voru jú eiginlega bara statistar) var felldur og réttilega dæmd vítaspyrna. Þó þetta hafi verið fiskað er ekki hægt að deila um dóminn.
Það næsta sem gerðist markvert er að leikmaður Hómer lét reka sig útaf fyrir kjaftbrúk. Sá brottrekstur var algjör óþarfi og hallast ég helst að því að dómarinn hafi talið að leikmaðurinn væri að gefa sér "fokk" merki þegar hann var í rauninni að gefa honum "thumbs up". Sérlega kjánaleg uppákoma.
Enn sóttu Henson af kappi en gekk illa að koma tuðrunni í netið. Hómer fékk ekki boltann öðruvísi en að spyrna honum 50 metra fram á völlinn.
Fimmta mark Hómer var þannig að dómarinn leit framhjá augljósu broti Hómers, leikmaður 10 hjá Hómer lék með boltann upp endalínu og lagði hann fyrir þar sem hinn leikmaður þeirra skoraði.
Henson skoraði svo glæsilegt mark úr aukaspyrnu sem fór beint í samskeytin þegar 5 mínútur voru eftir. Þess má geta að aukaspyrnan var misheppnuð fyrirgjöf.
Leikurinn var nokkuð prúðmannlega leikinn, Hómer er með gott lið þó það sé varla hægt að deila um að styrkur þess felst fyrst og fremst í tveimur leikmönnum.
Henson er ekki að byrja tímabilið vel og hefur nú tapað tveimur fyrstu leikjum sínum. Það er ljóst að Hensons þarf að ná meiri stöðugleika. Í leiknum í gær voru fjórir menn í byrjunarliði að spila sinn fyrsta leik. Þar með talið stórgóður framherji sem skoraði tvö fyrstu mörk Henson.
Persónulega þótti mér fullmikið um væl í dómara hjá leikmönnum Hómer. Nokkrir leikmenn Henson gerðu reyndar slíkt hið sama en þó ekki af sama mæli og Hómer.
Hómer geta vissulega fært rök fyrir því að hafa orðið fórnarlömb vafasamrar dómgæslu þegar leikmaður þeirra var rekinn af velli en þeir voru byrjaðir að væla í dómarann á fyrstu mínútu. Rauða spjaldið fengu þeir svo bætt síðar í leiknum þegar leikmaður þeirra fékk gult spjald en ekki rautt fyrir að taka leikmann Henson hálstaki eftir að leikmaður Henson hafði brotið á honum (nokkuð gróflega enda fékk hann réttilega gula spjaldið)
Ég vil að lokum þakka leikmönnum Hómer fyrir leikinn ( öllum, ekki bara þessum tveimur ;-) ) og óska þeim góðs gengis í sumar.
Matti nr. 17 hjá Henson, lék á vinstri kanti í gær og átti frekar dapran dag.