árás drápsbýflugunnar
Áróra kom niður fyrr í kvöld og sagðist hafa heyrt suð á miðhæðinni. Svalahurðin var opin eftir að ég grillaði í kvöld. Ég fór upp og rölti um stofuna, heyrði ekki neitt og sagði Áróru að vera ekki svona stressuð.
Nokkrum mínútum síðar kom Áróra aftur niður og sagðist enn heyra suð, aftur fór ég upp og sá loks þessa risastóru býflugu. Fjandinn hafi það, nú var ekki æskilegt að vera með 6 metra lofthæð í stofunni. Býflugan flögraði um í stofunni miðri þar sem lofthæðin er um fjórir metrar. Þetta var engin smábýfluga, ekkert krúttlegt kríli. Þetta var gríðarstór drápsbýfluga sem beið færis, ætlaði vafalítið að kyrkja okkur í svefni.
Ég íhugaði að hringja í 112, varð svo hugsað til orðsporsins, hefði a.m.k gert það ef ég ætti orðspor. Æi, stelpurnar þurfa stundum að líta upp til mín.
Ég sótti kúst, miðaði vel og sló til hennar leiftursnöggt. Hélt kústinum við loftið, reyndi að kremja kvikyndið sem lét öllum illum látum, heyrðist hún vera að blóta mér. "Ég skal ná þér drullusokkur". Þegar ég losaði takið "flögraði" hún niður og ég stökk úr stofunni, safnaði kjarki, læddist inn aftur og fann sært skrímslið í gluggasyllunni, á þeirru stundu batt ég enda á líf drápsbýflugunnar ógurlegu. Það sem eftir er sumars verður þess vandlega gætt að gluggar og dyr heimilisins séu ekki opin lengur en nauðsyn krefur.
Ég verð bara að játa það að ég þoli ekki býflugur og vespur. Er skíthræddur við þessi kvikyndi. Þó hef ég lúmskan grun um að það verði mitt hlutverk að verja heimilið fyrir ágangi þessara drápsvéla um ókomin ár.