Örvitinn

mæling í morgun

Fór í mælingu hjá Jóa í morgun. Helstur niðurstöður:

Þyngd: 85,9 kg
Fitumassi: 14,0 kg
Fituprósenta: 16,3%
Mitti: 99,5 cm

Tókum svo styrkarmælingar. Var með tvær endurtekningar í brjóstæfingunni, sem er það sama og síðast. 18 fótaréttur, á þar best um 30 minnir mig. Þessar mælingar eru framkvæmdar með því að setja pinnann undir öll lóðin og telja endurtekningar. Hef ekki hugmynd um hvað þetta er þungt.

Ég er alltaf léttari á vigtinni í World Class heldur en heima, en ég notast við World Class vigtina í þessum mælingum þar sem eldri mælingar notast við hana.

N.B. þetta er í fyrsta sinn sem ég sé 85.x kg í langan langan tíma (og ég hef eflaust stoppað stutt í þeirri þyngd síðast þegar ég sá hana, þegar ég var að þyngjast)

Einnig er skemmtilegur áfangi að vera kominn undir 100cm í mitti. í desember í fyrra (eftir fyrstu þrjá mánuðina í æfingu, þar sem ég missti 10kg) var ég 113cm í mitti.

Jói kom með nokkrar athugasemdir varðandi æfingarnar hjá mér sem ég þarf að taka til skoðunar. Ég þarf meðal annars að teygja betur á brjóstum og öxlum auk þess sem ég þarf að bæta við æfingum. Axlirnar á mér standa full mikið fram eins og er. Þarf að taka róðurinn inn í æfingaplanið.

Ég hef misst einhvern vöðvamassa frá því síðast, sem er viðbúið þegar maður léttist hratt. Mest af því er í fótum, enda hef ég verið frekar latur að taka fótaæfingar þetta árið!

Jói kom þó með góðan punkt, þar sem fótavöðvar eru frekar massívir brennir maður rosalega þegar maður lyftir með fótum. Maður á því að passa að taka fætur reglulega, þó það væri ekki nema bara til að brenna fitu.

heilsa